Hvar eru spilliefnin?
Þegar unnið er með endurnotað timbur frá niðurrifi eða endurbótum er mikilvægt að vera meðvitaður um að það geta verið umhverfis- og heilsuspillandi efni í gömlum byggingarefnum. Þú getur rekist á þau þegar þú þarft að skipta um hurðir og glugga, leggja ný gólf eða pússa þau gömlu, fjarlægja veggfóður eða málningu, gera upp baðherbergi og eldhús eða byggja viðbyggingu.
Timburvörur geta verið yfirborðsmeðhöndluð með málningu, lakki eða lími, sem inniheldur spilliefni. Þá getur timbrið einnig verið gegndreypt með spilliefnum.
Timbur getur einnig tekið í sig spilliefni úr nærliggjandi byggingarefnum, t.d. efni úr samskeytum í kringum gamla glugga sem smjúga í gegnum viðinn. Það eru þrjár tegundir af timbri sem þú getur lesið nánar um hér að neðan:
1. Hreint timbur
Hreint timbur má finna í byggingum í formi burðarviðar, það finnst sérstaklega í eldri íbúðarhúsnæði, t.d. á gólfflötum eða í þakvirkjum.
2. Yfirborðsmeðhöndlað timbur
Yfirborðsmeðhöndlað timbur finnst vanalega í hurðum, gluggum, eldhússkápum og parketi. Það er ekki sjálfgefið að yfirborðsmeðhöndlað timbur henti til endurnotkunar. Málning getur til dæmis innihaldið þungmálma og PCB-efni. Í gluggum sem notaðir voru í byggingum á árunum 1950 til 1977 er mikilvægt að vera meðvitaður um að gluggasamskeyti geta innihaldið PCB-efni sem gætu hafa mengað gluggakarminn.
Þetta er líka ástæðan fyrir því að timbur úr gluggum frá því tímabili þarf að kortleggja fyrir PCB og öðrum umhverfisspillandi efnum áður en þau eru fjarlægð úr byggingunni.
3. Gegndreypt timbur
Áður fyrr var aðallega notað króm, arsenik og kreósót til að gegndreypa timbur og enn er hætta á að timbur finnist gegndreypt með þessum efnum. Í dag er kopar, bór og fjöldi lífrænna efna notaður til gegndreypingar.
Annað þrýstifúavarið timbur getur verið grænleitt vegna þess að það inniheldur kopar, en það getur einnig verið litlaust. Vindur og veður geta líka breytt útliti timbursins þannig að það verður grátt. Oft er málað yfir gegndreypinguna sem gerir það að verkum að erfitt er að greina muninn á henni og máluðu timbri sem ekki er þrýstifúavarið.