Spilliefni í timburvörum

Þegar unnið er með endurnotkun og endurvinnslu timburs er mikilvægt að vera meðvitaður um hættuleg efni í vörunum sem maður meðhöndlar. Á þessari síðu má lesa meira um spilliefni í timburvörum og neðst á síðunni er spurningaþraut þar sem þú getur prófað þekkingu þína á þessu sviði.

Fyrirvari: Þetta er ekki tæmandi leiðarvísir um hvernig standa skuli að endurbótum eða niðurrifi bygginga sem innihalda spilliefni, heldur kynning á því mikilvægasta sem þarf að hafa í huga.

Handbók kennara:

3. Tre_IS.docx

 

Hvar eru spilliefnin?

Þegar unnið er með endurnotað timbur frá niðurrifi eða endurbótum er mikilvægt að vera meðvitaður um að það geta verið umhverfis- og heilsuspillandi efni í gömlum byggingarefnum. Þú getur rekist á þau þegar þú þarft að skipta um hurðir og glugga, leggja ný gólf eða pússa þau gömlu, fjarlægja veggfóður eða málningu, gera upp baðherbergi og eldhús eða byggja viðbyggingu.

Timburvörur geta verið yfirborðsmeðhöndluð með málningu, lakki eða lími, sem inniheldur spilliefni. Þá getur timbrið einnig verið gegndreypt með spilliefnum.

Timbur getur einnig tekið í sig spilliefni úr nærliggjandi byggingarefnum, t.d. efni úr samskeytum í kringum gamla glugga sem smjúga í gegnum viðinn. Það eru þrjár tegundir af timbri sem þú getur lesið nánar um hér að neðan:

1. Hreint timbur

Hreint timbur má finna í byggingum í formi burðarviðar, það finnst sérstaklega í eldri íbúðarhúsnæði, t.d. á gólfflötum eða í þakvirkjum.

2. Yfirborðsmeðhöndlað timbur

Yfirborðsmeðhöndlað timbur finnst vanalega í hurðum, gluggum, eldhússkápum og parketi. Það er ekki sjálfgefið að yfirborðsmeðhöndlað timbur henti til endurnotkunar. Málning getur til dæmis innihaldið þungmálma og PCB-efni. Í gluggum sem notaðir voru í byggingum á árunum 1950 til 1977 er mikilvægt að vera meðvitaður um að gluggasamskeyti geta innihaldið PCB-efni sem gætu hafa mengað gluggakarminn.

Þetta er líka ástæðan fyrir því að timbur úr gluggum frá því tímabili þarf að kortleggja fyrir PCB og öðrum umhverfisspillandi efnum áður en þau eru fjarlægð úr byggingunni.

3. Gegndreypt timbur

Áður fyrr var aðallega notað króm, arsenik og kreósót til að gegndreypa timbur og enn er hætta á að timbur finnist gegndreypt með þessum efnum. Í dag er kopar, bór og fjöldi lífrænna efna notaður til gegndreypingar.

Annað þrýstifúavarið timbur getur verið grænleitt vegna þess að það inniheldur kopar, en það getur einnig verið litlaust. Vindur og veður geta líka breytt útliti timbursins þannig að það verður grátt. Oft er málað yfir gegndreypinguna sem gerir það að verkum að erfitt er að greina muninn á henni og máluðu timbri sem ekki er þrýstifúavarið.

Tegundir endurnotanlegs timburs og hugsanleg vandamál

  • Timbur málað með innanhúsmálningu: Getur verið vandamál þar sem málningin getur innihaldið skaðleg efni eins og blý og aðra þungmálma.
  • OSB-plötur, krossviður, spónaplötur: Þessi efni geta innihaldið lím og efni sem gera endurvinnslu erfiða.
  • Bretti, plankar, viðargólf, hurðakarmar: Hægt að endurvinna með viðeigandi meðhöndlun og eftir að öll mengandi efni eins og málning eða gegndreyping hafa verið fjarlægð. Auk þess þarf að þekkja sögu timbursins ef hætta er á að það hafi komist í snertingu við spilliefni.
  • Óbólstruð viðarhúsgögn, eldhúseiningar úr gegnheilu timbri: Hægt að endurvinna en ef viðurinn er gegndreyptur eða meðhöndlaður getur það verið vandamál fyrir endurnotkun.
  • Eldhúseiningar úr spónaplötum: Þetta getur verið vandamál vegna líms og efna sem hafa verið notuð við framleiðslu.
  • Gegndreypt timbur: Inniheldur oft eitruð efni eins og þungmálma eða efni sem gera endurvinnslu erfiða og hugsanlega hættulega.
  • Timbur málað með útimálningu, húsgögn/sófar með efni eða svampi. MDF-plötur: Þær getur innihaldið eitruð efni eða efni sem erfitt er að endurvinna vegna líms, málningar eða efnismeðferðar.

Hver eru hættulegu efnin í timburvörum?

Það eru mörg mismunandi hættuleg efni sem er mikilvægt að vera meðvitaður um þegar unnið er með timbur. Þessi átta mismunandi efni sem eru útlistuð hér eru vafasöm og mikilvægt er að þú þekkir þau svo þú eigir ekki á hættu að útsetja þig eða aðra fyrir þeim þegar unnið er að endurnotkun og endurvinnslu timburs. Hversu mörg þessara efna þekkir þú nú þegar?

1. PCB

PCB stendur fyrir fjölklórað bífenýl (e. polychlorinated biphenyls) og er lífrænt mengunarefni. Það eru til 209 mismunandi gerðir af PCB (efnamyndir). PCB er aðallega að finna í þéttiefnum, gluggum með tvöföldu gleri, LED-ljósum sem og endingargóðri málningu og gólfefnum í byggingum sem voru reistar eða endurgerðar á árunum 1950 til 1977.

PCB var einnig notað í þétta og spennubreyta allt til ársins 1986. Noktun PCB er ólögleg í dag. Bannið hefur verið í gildi fyrir byggingarefni síðan 1977 og í öllu öðru samhengi síðan 1986. PCB er þrávirkt lífrænt efni og fellur undir Stokkhólmssamninginn.

Af hverju er PCB hættulegt?

PCB veldur m.a. skaða á æxlunargetu, ónæmiskerfi og lifur, og truflar jafnframt hormónastarfsemi. Efnin eru einnig talin vera krabbameinsvaldandi. Í náttúrunni safnast efnin upp og brotna hægt niður. PCB er mikið áhyggjuefni þar sem fólk getur orðið útsett fyrir efninu við uppgufun þess úr samskeytum í inniloft. PCB getur losnað út í umhverfið ef það er ekki fjarlægt úr úrgangi. Þannig getur það safnast fyrir í fæðukeðjunni og fólk getur orðið útsett fyrir PCB í gegnum mataræði.

2. Asbest

Asbest samanstendur af steinefnum sem hægt er að sundra niður í trefjar. Asbest var mikið notað í byggingariðnaði til ársins 1990 þegar endanlegt bann við notkun þess var lagt fram. Asbest hefur verið notað í mörg byggingarefni, til dæmis í eternítplötur.

Við meðhöndlun asbestúrgangs getur myndast ryk sem inniheldur trefjar sem geta safnast fyrir í lungum. Rykið getur verið svo fínt að það sést ekki með berum augum. Innöndun asbesttrefja getur valdið lungna- og fleyðrukrabbameini auk sjúkdómsins steinlunga, sem er langvinnur lungnasjúkdómur.

Af hverju er asbest hættulegt?

Asbest, þegar það er fjarlægt, er talið úrgangur og má hvorki endurnota né endurvinna. Það verður að meðhöndla samkvæmt reglum um hættulegan úrgang, nema það gefi ekki frá sér rykagnir.

3. Blý og þungmálmar

Á mörgum heimilum eru þungmálmar í málningunni. Blý var notað í miklu magni í málningu í mörg ár, allt fram til ársins 2000. Málning sem inniheldur blý er oft notuð á tréverk og mannvirki þar sem hætta er á hækkandi raka í jörðu eða þar sem málningin þarf að vera þolnari.

Ef maður pússar eða brennir yfirborð sem málað er með málningu sem inniheldur blý losna þungmálmarnir út í loftið sem ryk eða gastegundir. Þetta skapar hættu á að þú og aðrir andi þeim að sér og verði fyrir heilsutjóni. Sem stendur er blý bannað í byggingariðnaði.

Af hverju eru blý og þungmálmar hættuleg?

Blý hefur áhrif á taugakerfið og börn eru sérstaklega viðkvæm. Blý er eitrað vatns- og jarðvegslífverum og safnast fyrir í náttúrunni og í mönnum. Blý getur dreifst út í umhverfið ef málning sem inniheldur blý er ekki fjarlægð úr byggingarúrgangi áður en honum er fargað. Fyrir vikið getur það safnast fyrir í fæðukeðjunni.

4. Arsenik

Arsenik er frumefni með heitið As. Arsenik getur birst í nokkrum afbrigðum, t.d. As(III) og As(V). Arsenik hefur m.a. verið notað í viðarvörn og í málningu. Byrjað var að hætta notkun arseniks í nokkrum áföngum um 1990.

Arsenik getur losnað út í umhverfið ef málning sem inniheldur arsenik er ekki fjarlægð úr byggingarúrgangi áður en honum er fargað. Fyrir vikið getur það safnast fyrir í fæðukeðjunni. Þrýstifúavarið timbur með arseniki er almennt talið spilliefni nema greiningar sýni að magnið sé undir viðmiðunarmörkum spilliefna. Þrýstifúavarið timbur með arseniki er vanalega urðað í landfyllingu.

Af hverju er arsenik hættulegt?

Arsenik er eitrað mönnum og hefur bæði bráð og langvarandi áhrif. Til dæmis geta skemmdir orðið á húð, taugum, lifur og meltingarvegi. Ennfremur er efnið krabbameinsvaldandi.

5. Kopar

Kopar er málmur með heitinu Cu. Kopar er til dæmis notað í plötur fyrir þök og framhliðar, lagnir, málmblöndur og rafmagnskapla. Hann er einnig hægt að nota í gegndreypingu timburs og sem viðarvörn. Kopar hefur verið notaður í málningu.

Kopar getur losnað út í umhverfið ef málning sem inniheldur kopar er ekki fjarlægð úr byggingarúrgangi áður en honum er fargað. Fyrir vikið getur hann safnast fyrir í fæðukeðjunni.

Af hverju er kopar hættulegur?

Kopar er ekki góður fyrir umhverfið. Sum koparsambönd eru eitruð vatnalífverum. Kopar getur einnig hamlað vexti plantna.

6. Klóruð paraffín

Klóruð paraffín er flókin efnablanda sem skiptist í undirflokka sem innihalda stutta (SCCP), miðlungs (MCCP) eða langa keðju. Klóruð paraffín hafa til dæmis verið notuð í þéttiefni og þegar notkun PCB var bönnuð seint á áttunda áratugnum jókst notkun klórparaffína. Árið 2002 var byrjað að hætta notkun efnanna í Evrópu í áföngum.

Notkun klóraðra paraffína nær aftur til 1950 og líklega fyrr. Framleiðsla, markaðssetning og notkun SCCP hefur almennt verið bönnuð innan Evrópusambandsins síðan 2012. Klóruð paraffín eru þrávirk lífræn mengunarefni og falla undir evrópsku POP-reglugerðina. Árið 2015 voru sett markgildi fyrir SCCP í POP-reglugerðinni, sem þýðir að úrgang með innihaldi yfir 10.000 mg/kg verður að meðhöndla þannig að efnið eyðist.

Af hverju eru klóruð paraffín hættuleg?

Klóruð paraffín eru hugsanlega hormónaraskandi og grunur leikur á að SCCP sé krabbameinsvaldandi. Þau eru einnig eitruð sjávarlífríkinu. Klóruð paraffín geta losnað út í umhverfið ef þau eru ekki fjarlægð úr úrgangi. Þannig getur það safnast fyrir í fæðukeðjunni og fólk getur þar með orðið útsett fyrir efnunum.

7. Formaldehýð

Formaldehýð hefur efnaformúluna HCHO. Við stofuhita birtist efnið í gasformi. Í samsetningu með t.d. þvagefni, melamíni og fenóli er hægt að nota formaldehýð í límefni í krossvið og spónaplötur. Vatnslausn formaldehýðs er formalín, sem er notað til að sótthreinsa eða varðveita lífræn sýni. Formaldehýð getur til dæmis komið fyrir í límefnum og lakki.

Að auki er hægt að nota það í viðarplötur eins og krossvið og spónaplötur sem eru algengar í byggingariðnaði, húsgögnum og innréttingum. Bindiefnið í steinullarvörum (t.d. einangrun og hljóðloft) getur einnig losað formaldehýð.

Formaldehýð getur losað gas út í inniloft frá viðarplötum og sýruhertu lakki. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir að spónaplötur, krossviður og sambærilegar plötur framleiddar eftir 1983 losi formaldehýð í hættulegu magni. Formaldehýð er venjulega ekki talið með þegar umhverfiskortlagning er gerð. Í tengslum við endurnotkun og endurvinnslu efna er hins vegar mikilvægt að vera meðvitaður um reglur er varða efni sem innihalda formaldehýð. Þetta er mikilvægt til að tryggja að maður sé meðvitaður um hvort efnin sem verið er að endurnota og endurvinna geti innihaldið eða losað formaldehýð.

Af hverju er formaldehýð hættulegt?

Ef styrkur formaldehýðs er of hár getur það ert augu og öndunarfæri. Langtíma útsetning getur leitt til krabbameins í öndunarvegi.

8. PFAS

PFAS efnasambönd eru samheiti yfir hóp perflúoralkýl og pólýflúoralkýl efnasambanda. Allt að 12.000 PFAS efnasambönd eru þekkt. Efnin eru manngerð og hafa m.a. þá eiginleika að þau hrinda frá sér vatni og fitu, mörg efnanna eru einnig yfirborðsvirk. Vegna eiginleika efnanna eru þau mikið notuð, til dæmis í málningu og viðarvörn. Þessi víðtæka notkun þýðir að PFAS finnast víða í umhverfinu.

Engar raunverulegar rannsóknir hafa verið gerðar á því hvar PFAS finnst í byggingum. Þar sem byggingar eru ekki kerfisbundið skoðaðar með tilliti til PFAS fyrir niðurrif og endurbætur eru heldur ekki mikið af gögnum á því sviði. Árið 2022 greindi Eurofins 25 málningarsýni auk sýnishorna af steinsteypu, gljábrenndum flísum, gólfdúki og veggfóðri. Þau komust að því að 23 af 25 málningarsýnum fóru umfram jarðvegsgæðaviðmiðið fyrir PFAS-4 (á meðan ekkert af sýnunum fór yfir gæðaviðmiðið fyrir PFAS-22). PFAS fundust einnig í sumum sýnum af veggfóðri og gólfdúki.

Af hverju eru PFAS hættuleg?

Þó PFAS séu fjölbreyttur hópur efna á það við um langflest efnanna að þau eru erfið í niðurbroti og geta safnast fyrir í plöntum, dýrum og mönnum. Ennfremur geta þau ferðast um í vatnsumhverfi. Efnaflokkurinn hefur einnig mismunandi áhrif á heilsu manna. Sum efnanna eru skaðleg æxlun, krabbameinsvaldandi eða talin geta valdið krabbameini og skemmdum á líffærum auk þess að skaða augu og húð.

Hvernig skal bera kennsl á hættuleg efni?

Umhverfisrannsókn

Við niðurrif og endurnýjun bygginga er verktökum í flestum löndum skylt að láta gera umhverfisrannsókn. Markmiðið með framkvæmd umhverfisrannsókna á byggingu er að staðsetja og kortleggja umhverfisspillandi efni og mengaðar byggingareiningar, þannig að iðnaðarmenn geti skipulagt vinnuumhverfið og útvegað nauðsynlegan hlífðarbúnað.

Í reynd fer umhverfisrannsókn fram með því að taka slembisýni af ákveðnum tegundum byggingarefna sem vitað er að innihaldi umhverfisspillandi efni. Þegar sýnin hafa verið tekin eru þau send til greiningar á rannsóknarstofu sem er viðurkennd til að framkvæma greiningar á nákvæmlega þeim efnum sem byggingarefnin gætu innihaldið. Flokkunin í hreinan, mengaðan eða hættulegan úrgang fer síðan fram á grundvelli gildandi reglugerða.

Auk þess er markmið umhverfisrannsókna að flokka og meðhöndla spilliefni við stýrð skilyrði, til að koma í veg fyrir að umhverfisspillandi efni losni út í umhverfið í gegnum endurvinnslu efna úr niðurrifi eða enduruppbyggingu.

Auðlindakortlagning

Auðlindakortlagning á við um ítarlega rannsókn byggingar með það fyrir augum að kortleggja tiltækar auðlindir fyrir niðurrif eða endurbætur. Kortlagningin veitir ítarlegt yfirlit yfir innihald efna sem henta til endurnotkunar, endurvinnslu og efnisendurheimt.

Það skiptir sköpum fyrir notagildi auðlindakortlagningar að hún sé unnin í upphafsáfanga verks, samhliða eða sem áframhald umhverfisrannsóknar byggingarinnar. Upplýsingar um spilliefni úr umhverfisrannsókninni eru mikilvæg breyta við mat á því hvort tiltæk efni geti talist sem auðlind, eða hvort meðhöndla eigi þau sem mengaðan eða hættulegan úrgang. Saman mynda þessar kortlagningar grunn að síðari skipulagningu og lýsingu á niðurrifinu.

Efnisvegabréf

Efnisvegabréf er eins konar auðkenniskort eða vöruyfirlýsing fyrir byggingarefni. Efnisvegabréf geta verið mikilvæg til að tryggja að hættuleg efni í endurunnum efnum séu auðkennd og meðhöndluð á réttan hátt allan lífsferil þeirra. Það getur skjalfest og upplýst um tiltekin hættuleg efni og hugsanleg áhrif þeirra á umhverfi og heilsu, sem er nauðsynlegt til að tryggja ábyrga endurvinnslu og endurnotkun timburefna.

Í hvað er hægt að nota endurnotað timbur?

Mikið af timburúrgangi frá byggingum er í dag brenndur og notaður sem orkugjafi til að hita upp heimili. Það væri betra fyrir umhverfið ef við endurnotuðum og endurynnum meira af timbri í framtíðinni. En í hvað er hægt að nota timbrið?

Timburvörur til endurnotkunar

Allt hreint timbur sem er ekki skemmt og án málningar með hættulegum efnum má endurnota. Til dæmis er hægt að nota gamlar þaksperrur og gólfbita sem nýjar sperrur í skúr eða bílskúr. Notaðar gólffjalir, sem ekki hafa verið málaðar með viðarvörn eða hættulegum efnum, má endurnýta sem gólfefni í nýbyggingar. Notaðar hurðar og gluggar með málningu án hættulegra efna má einnig endurnota. Hægt er að endurnota hreinar plötur, planka og trélista í húsgögn, klæðningu og innréttingar.

Timburvörur til endurvinnslu

Hægt er að endurvinna plötur, bjálka, gólflista, krossviðarplötur, eldhússkápa, lakkaðar plötur, trélista, planka og spónaplötur í nýjar vörur. Flest timburefni er hægt að brjóta niður í trefjar og nota í nýjar spónaplötur eða trefjaeinangrun. Sumt er hægt að nota í OSB og krossviðarplötur, en gegnheila bita og plötur er hægt að nota með nýju timbri fyrir nýja límtrésbita eða krosslímt timbur.

Timburvörur til brennslu

Timburvörur eins og harðparket, fúinn viður, gluggar og hurðar með málningu, svo og masonít og MDF-plötur henta ekki í nýjar vörur. Þær verður því yfirleitt að brenna og nota sem hitagjafa.

Timburvörur til urðunar

Allar timburvörur sem eru skimaðar fyrir hættulegum efnum og má ekki brenna verður að urða. Einungis má brenna þrýstifúavarið timbur í viðurkenndum brennsluofnum vegna efnainnihalds þess.

TÍMI: U.þ.b. 15 MÍNÚTUR

Spurningaþraut: Hvar er spilliefni að finna?

Nú hefur þú lært margt um spilliefni í timburvörum, en hversu mikið af því manstu raunverulega? Athugaðu hversu mörg rétt svör þú getur fengið og ef þú ert í vafa geturðu bara skrollað aðeins upp og fundið svarið hér á síðunni.