Hönnun fyrir aðskilnað
Hugtakið Hönnun fyrir aðskilnað, eða Design for Disassembly eins og það heitir á ensku, þýðir að mannvirki er hannað á þann hátt að hægt sé að skilja í sundur einingar þess og endurnota í kjölfarið í önnur mannvirki. Mannvirkið ætti að vera hægt að taka í sundur án þess að skemma þau byggingarefni sem notuð eru. Tilgangur hönnunar fyrir aðskilnað er að stuðla að því að draga úr neyslu óendurnýjanlegra auðlinda og minnka magn úrgangs. Fyrir byggingariðnaðinn þýðir hönnun fyrir aðskilnað að byggingarefni þarf að fjarlægja, flokka og endurvinna. Það er hægt að gera með beinni endurnotkun, þ.e. að byggingarefnið sé notað aftur án frekari vinnslu, eða með því að endurvinna hreint efnisflæði, þ.e. þegar efnin eru endurnýtt í nýjar vörur eftir vinnslu.
Huga þarf að hönnun fyrir aðskilnað í byggingum með timbri í mun meira mæli en gert er í dag. T.d. er mikilvægt að samskeyti séu sýnileg, einföld og ekki falin. Viðurinn þarf að vera hreinn og laus við óæskileg efni. Sýnileg samskeyti geta t.d. verið skrúfuð eða boltuð saman þannig að auðveldara sé að aðskilja þau og endurnota.
Eftirfarandi sýnir dæmi um timbur sem er notað á þann hátt að hægt sé að aðskilja og endurnota það.